Frestur til að sækja um gestafyrirlesara- og ráðstefnustyrki fyrir tímabilið nóv. 2024 til okt. 2025 er til 7. október 2024, kl. 15:00
Um er að ræða styrki fyrir:
Skólameistara framhaldsskóla: sem tilnefnir 1-2 kennara til að sækja námskeið eða ráðstefnu erlendis. Styrksupphæð er 300.000 krónur á þátttakanda og skulu þátttakendur sækja sama námskeið.
Faggreinafélög: sem tilnefna 1-2 stjórnarmenn til að sækja námskeið eða ráðstefnu erlendis. Styrksupphæð er 300.000 krónur á þátttakanda og skulu þátttakendur sækja sama námskeið. Einnig getur faggreinafélagið sótt um styrk fyrir gestafyrirlesara til að halda erindi fyrir félagið að hámarki 100.000 krónur.
Ath. Ef um ferðalög er að ræða er ætlast til að sóttar séu fagráðstefnur eða námskeið. Ekki eru veittir styrkir til kynnisferða, sölusýninga eða skólaheimsókna.
Ferðatímabilið/gestafyrirlestrarnir skulu eiga sér stað frá 1. nóvember – 31. október. Ekki er hægt að sækja um styrki afturvirkt fyrir ferðir/fyrirlestra sem hafa átt sér stað!
Umsóknir skulu innihalda rökstudda lýsingu á því hvernig námskeiðið, ráðstefnan eða gestafyrirlesarinn gagnist skólanum, kennurunum og skólasamfélaginu og hvernig kynningu á afrakstri verður háttað. Stjórn SEF mun meta umsóknir og vel unnin umsókn er skilyrði fyrir styrkveitingu.
Styrkir vegna ráðstefnu eru greiddir í lok ferðar og skal þá senda stutta frásögn af ferðinni ásamt flugmiða með tölvupósti á umsjónarmann SEF hjá Rannís.
Styrkir vegna fyrirlestra eru greiddir þegar kvittun vegna greiðslu til fyrirlesara ásamt stuttri greinagerð hefur borist umsjónarmanni SEF hjá Rannís rafrænt.
Aukastyrkir eru veittir til framhaldsskólakennara utan að landi og eru þeir styrkir greiddir samhliða lokagreiðslu. Vinsamlegast hafið samband við umsjónarmann SEF hjá Rannís vegna þessa.