Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2015

Benedikt Atli Jónsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2015 fyrir verkefnið Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda. Leiðbeinendur hans í verkefninu voru Einar Stefánsson, Gísli Hreinn Halldórsson, Róbert Arnar Karlsson og Sveinn Hákon Harðarson. Verkefnið var unnið í samstarfi Oxymap, Háskóla Íslands og Landspítalans.

Augnbotnamyndir eru mikilvægar í augnlækningum til að greina og fylgjast með augnsjúkdómum. Árangur slíkrar greiningar ræðst þó af myndgæðum þar sem léleg myndgæði geta falið læknisfræðileg ummerki og valdið rangri greiningu. Hingað til hefur reynst erfitt að meta gæði og skerpu mynda, en í verkefninu var þróuð sjálfvirk aðferð til að meta gæði augnbotnamynda. Aðferðin hjálpar þeim sem tekur myndir að sjá strax hvort myndirnar eru nægilega góðar og voru 254 augnbotnamyndir, af jafnmörgum einstaklingum notaðar til að þjálfa gervigreindar-reiknirit til að meta skerpu og fókus mynda. Niðurstöður reikniritsins voru síðan bornar saman við einkunnir frá sérfræðingum. Sjálfvirka aðferðin, sem var þróuð í þessu verkefni, metur myndgæði með mun áreiðanlegri hætti en sérfræðingar. Því tryggir hún að myndatakan verður skilvirkari og áreiðanlegri. Þannig er t.d. ólíklegra að endurtaka þurfi myndatöku síðar vegna lélegra myndgæða. Í því felst sparnaður og greiningin verður öruggari vegna betri myndgæða. Að auki felur aðferðin í sér ýmsa möguleika til hagnýtingar sem hugbúnaðarvara fyrir augnbotnamyndatöku og fleira. Sjálfvirka aðferðin mun verða hluti af næstu hugbúnaðaruppfærslu fyrirtækisins Oxymap, sem hefur þróað tæki og hugbúnað til að greina augnbotnamyndir. Aðferðin er nú einnig komin í notkun á Landspítalanum og áhugi er á henni erlendis.

Verðlaunagripurinn í ár

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunin voru fyrst veitt 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta sinn. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin. Verðlaunagripurinn er listaverkið Óljóst (2015) eftir listamanninn Þór Sigurþórsson. Allir sem tilnefndir eru og hafa hlotið þá viðurkenningu að verkefnið þeirra hefur verið valið sem öndvegisverkefni sjóðsins fengu viðurkenningarskjal undirritað af forsetanum.

Fjögur önnur verkefni hlutu sérstaka viðurkenningu:

  • Aukin verðmæti úr vinnslu á karfa (Sebastes) - Rannsók á efnsamsetningu og lífvirkni slíms úr karfaaugum. Nemandi: Friðrik Þór Bjarnason, Háskólinn á Akureyri. Leiðbeinandi: Rannveig Björnsdóttir. Verkefnið er unnið í samstarfi Háskólans á Akureyri og Matís ohf.
  • Eden hugmyndafræðin og hlýleiki á Öldrunarheimilum Akureyrar. Nemandi: María Guðnadóttir, nemandi við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi: Halldór Sigurður Guðmundsson, Öldrunarheimili Akureyrar.
  • Íslenskir þjóðstígar: stefnumótun um gönguleiðir á Íslandi. Nemandi: Gísli Rafn Guðmundsson. Leiðbeinendur: Björn Jóhansson og Ólafur Árnason. Verkefnið er unnið í samstarfi EFLU hf, verkfræðistofu og Ferðamálastofu.
  • Íslenskuþorpið; leið til þátttöku í samskiptum á íslensku. Nemandi: Edvardas Paskevicius, nemandi við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi: Guðrún Theódórsdóttir, Háskóli Íslands.







Þetta vefsvæði byggir á Eplica