Háskólanema í grunn- og meistaranámi. Umsjónarmenn innan háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja geta sótt í sjóðinn án þess að hafa fundið nema.
Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi og námi á meistarastigi við háskóla til sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni.
Umsóknarfresur:
Umsóknarfrestur er einu sinni á ári. Næsti umsóknarfrestur er 7. febrúar 2025 kl. 15:00Sjóðurinn er fjármagnaður með framlögum frá ríki (háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti) 90 m.kr. og Reykjavíkurborg 15 m.kr. Frá stofnun 1992 hefur sjóðurinn getið sér gott orð og fest sig í sessi fyrir vinnu mörg hundruð námsmanna og verkefna sem þeir hafa leyst af hendi fyrir tilstyrk sjóðsins.
Styrkir skulu veittir til rannsókna- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. Umsóknir um styrki skal meta með hliðsjón af möguleikum til hagnýtingar í atvinnulífinu og nýnæmi fyrir þekkingu í viðkomandi fræðigrein. Verkefnin skulu leyst af hendi með sjálfstæðri og faglegri vinnu námsmanns undir leiðsögn ábyrgðarmanna. Styrkir eru ekki veittir til lokaverkefna námsmanna. Stjórn er heimilt að veita forgang verkefnum taki fyrirtæki eða aðrir aðilar þátt í kostnaði.
Sjóðurinn styrkir nema til rannsókna- og þróunarverkefna yfir sumartímann. Styrkveiting felst í því að sjóðurinn greiðir 80% af styrkupphæð við undirritun samnings og 20% þegar tæknilegri lokaskýrslu er skilað. Háskóli, rannsóknastofnun, fyrirtæki sér fyrir aðstöðu og efniskostnaði. Eins geta fyrirtæki, stofnanir, háskólar eða viðkomandi umsjónaraðilar sett nema á launaskrá og greitt viðbótarlaun til nema. Nemar á launaskrá eru þar af leiðandi tryggðir við störf sín. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.
Mörg dæmi eru um að nýsköpunarverkefni hafi velt af stað viðameiri þróunarverkefnum innan fyrirtækja. Ungt fólk er oft djarft og frjótt í hugsun og fyrirtæki hafa verið tilbúin til að fjárfesta í hagkvæmnisathugun með aðstoð Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Oft eru það áhugasömustu nemendurnir sem sækjast eftir vinnu við rannsóknir á sumrin. Vinna á vegum Nýsköpunarsjóðs hefur verið vettvangur fyrirtækja til að mynda tengsl við nemendur og oft hafa þau tengsl leitt til atvinnutilboða að námi loknu. Sjóðurinn er því einnig ákjósanlegur vettvangur fyrir nemendur til að kynnast framsæknustu fyrirtækjum og stofnunum landsins.