Menntun fyrir samfélagslega sjálfbæra framtíð
Nordplus stendur fyrir rafrænni ráðstefnu þriðjudaginn 27. maí 2025 þar sem fjallað verður um hlutverk menntunar í að stuðla að samfélagslegri sjálfbærni.
Nordplus býður til rafrænnar ráðstefnu þriðjudaginn 27. maí 2025 kl. 12:00–14:30 að íslenskum tíma. Þar verður fjallað um hvernig menntun getur lagt sitt af mörkum til samfélagslegrar sjálfbærni.
Á ráðstefnunni verður kastljósinu beint að samstarfi á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum í menntun á öllum skólastigum og því hvernig við getum undirbúið börn, ungmenni og fullorðna fyrir samfélagslega sjálfbæra framtíð.
Margvísleg verkefni verða kynnt sem öll hafa hlotið styrki úr Nordplus og snúa að þátttöku, lýðræði, tungumálavernd, samfélagslegri ábyrgð og auknu samstarfi þvert á landamæri. Þá flytur prófessor Elina Lehtomäki frá Háskólanum í Oulu lykilerindi um menntun, þátttöku og sjálfbærni í alþjóðlegu samhengi.
Ráðstefnan er opin öllum sem hafa áhuga á menntun, samfélagslegri þróun og samstarfi á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum — þátttakendur úr leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, fullorðinsfræðslu og háskólum eru sérstaklega hvattir til þátttöku.
Að dagskrá lokinni verður boðið upp á valkvæðan fræðslufund fyrir þá sem vilja kynna sér Nordplus nánar, frá kl. 14:40–15:10 að íslenskum tíma.