Námsorlof kennara og stjórnenda framhaldsskóla

namsorlof.framhaldsskola(hja)rannis.is

Fyrir hverja?

Kennara, náms- og starfsráðgjafa, skólameistara og aðra stjórnendur framhaldsskóla sem starfað hafa í a.m.k. fimm ár við kennslu- eða stjórnunarstörf í framhaldsskóla. Þeir ganga fyrir sem ekki hafa hlotið launað námsorlof áður (frá grunn- eða framhaldsskólakennslu).

Til hvers?

Tilgangur námsorlofs er að veita þeim sem um það sækja tækifæri til að efla þekkingu sína og hæfni í starfi.


Lokað er fyrir umsóknir. Lokadagur umsókna var 7. október kl. 15:00

Senda fyrirspurn.

EN

Hvert er markmiðið?

Tilgangur námsorlofs er að veita þeim sem um það sækja tækifæri til að efla þekkingu sína og hæfni í starfi. Veiting námsorlofa kennara, náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda í framhaldsskólum fer fram samkvæmt 11. grein laga um framhaldsskóla,  nr. 92/2008 og reglugerð  nr. 762/2010.

Hverjir geta sótt um?

Kennarar, náms- og starfsráðgjafar, skólameistarar og aðrir stjórnendur framhaldsskóla sem starfað hafa í a.m.k. fimm ár við kennslu- eða stjórnunarstörf í framhaldsskóla geta sótt um sérstakt námsorlof til þess að efla þekkingu sína og hæfni í starfi.

Skólameistarar geta sótt um orlof í nafni skóla fyrir einstaka kennara/náms- og starfsráðgjafa til þekkingaröflunar eða þjálfunar sem skólinn leggur sérstaka áherslu á. Markmið skólameistaraorlofs er að virkja kennara, náms-og starfsráðgjafa og stjórnendur sem eru með styttri starfsaldur til að sækja sér endurmenntun. 

Útfærsla orlofs

Námsorlof getur annars vegar falist í fullu leyfi frá störfum í allt að eitt ár eða lækkun á vinnuskyldu innan þeirra marka, og hins vegar í greiðslu mánaðarlauna í allt að eitt ár eða greiðslu hlutfalls þeirra sem svarar til lækkunar vinnuskyldu, ef um slíkt er að ræða. Um mánaðarlaun skólameistara fer samkvæmt ákvörðun Kjararáðs um mánaðarlaun án eininga. Starfshlutfall í ráðningarsambandi stýrir launagreiðslu og því er styrkur í samræmi við starfshlutfall við skólann. 

Styrkir

Ef heimild er veitt til þess að nýta námsorlof til þess að stunda fjarnám við viðurkennda menntastofnun eða þjálfun, t.d. vegna tækniþróunar, án leyfis frá starfi eða lækkunar vinnuskyldu, er heimilt að veita styrk til slíks náms til að mæta útlögðum kostnaði, s.s. vegna skólagjalda og tiltekins ferðakostnaðar.

Skilyrði úthlutunar

Umsókn þarf að berast rafrænu umsóknarkerfi Rannís fyrir lok umsóknarfrests. Umsækjendur þurfa að hafa starfað í a.m.k. fimm ár við kennslu- eða stjórnunarstörf í framhaldsskóla. Umsækjandi um námsorlof skal upplýsa skólameistara um umsókn sína.

Algengar spurningar

Get ég fengið orlof tvisvar?

Miðað við fjölda orlofa og fjölda umsókna þá eru þeir umsækjendur sem hafa ekki hlotið orlof áður í forgangi. Vanalega eru ekki veitt námsorlof þeim sem hafa hlotið orlof áður (samtals í eitt ár), hvort sem um grunnskólaorlof eða framhaldsskólaorlof sé að ræða.

Hver er munurinn á námsorlofi kennara og námsorlofi sem skólameistari sækir um fyrir hönd kennara?

Þegar kennarar sækja um sjálfir, vegur starfsaldur þungt í þeirra umsókn. Hafi kennarar stuttan starfsaldur, er ólíklegt að þær umsóknir hljóti brautargengi. Kennarar með stuttan starfsaldur eru hvattir til að óska eftir því að skólameistari sæki um skólameistaraorlof fyrir sig. Skólameistaraorlofið er hugsað til að hvetja unga kennara, náms-og starfsráðgjafa og stjórnendur til að sækja sér viðbótamenntun sem styrkir skólann og skólastarfið.

Verð ég að fara í háskólanám?

Miðað er við framhaldsnám eða endurmenntun við viðurkennda menntastofnun innanlands eða í útlöndum. Skráning í framhaldsnám þarf ekki að liggja fyrir í umsókn, en skýr áætlun um framhaldsnám er forsenda góðrar umsóknar. Skráning í námið þarf þó að liggja fyrir áður en námsorlof hefst.

Verð ég að fara í nám í mínu fagi?

Miðað er við að kennarar séu að afla sér framhaldsnáms eða endurmenntunar í sínu fagi. Ef um nám í öðru fagi er að ræða þarf að liggja skýr rökstuðningur fyrir því að slíkt sé hugsað til að mæta þörfum skólans og / eða nemenda.

Er einungis farið eftir starfsaldri við val á umsækjendum um námsorlof?

Margir þættir spila inn í val á umsækjendum um námsorlof. Starfsaldur er einn þeirra þátta (í námsorlofsumsóknum kennara, þó ekki skólameistaratilnefningunum) en fleiri þættir spila inn í mat umsókna (gæði umsóknar, dreifing á milli skóla, kyns, námsgreina o.fl) .  Mikilvægt er að vanda skrif umsóknar og hafa skýra hugmynd um hvernig skal verja námsorlofinu.  Valnefnd les allar umsóknir og tekur marga þætti til umfjöllunar í mati sínu. Lesa meira hér.

Er öll kennslureynsla talin með?

Fyrst og fremst er horft til kennslu við framhaldsskóla, eins og kveðið er á um í reglugerð.

Geta skólar verið vissir um að fá námsorlof á hverju ári?

Skólar geta ekki vænst ákveðins fjölda orlofa á hverju ári. Umsóknir eru margfalt fleiri en námsorlof og reynt er að tryggja dreifingu á milli skóla með sanngjörnu móti. Aðrir þættir spila inn í niðurstöðuna, svo sem fjöldi umsækjenda frá hverjum skóla, starfsaldur þeirra og gæði umsókna.

Get ég mótmælt niðurstöðunni?

Ákvörðun nefndarinnar telst til stjórnsýsluákvarðana og er því endanleg.

Nánari upplýsingar

  • Skúli Leifsson, s. 5155843
  • Tekið er á móti fyrirspurnum á namsorlof.framhaldsskola (hja) rannis.is







Þetta vefsvæði byggir á Eplica