MEDIA styrkir til kvikmynda og tölvuleikja 2024

27.11.2024

Á árinu 2024 hafa Creative Europe MEDIA styrkir til kvikmynda og tölvuleikja numið 1.6 milljón evra eða um 240 milljónir íslenskra króna.

Á árinu hafa 19 umsóknir verið sendar inn frá Íslandi í MEDIA, kvikmyndahluta Creative Europe.  Átta umsóknir voru sendar í sjónvarpssjóðinn á árinu og fengu þrjár þeirra styrki að upphæð hálf milljón evra hver.  

Sagafilm fékk úthlutað 500 þúsund evrum, til framleiðslu á spennuþáttaröðinni Teikn (Signals). Þáttaröðin fjallar um dularfullar og hættulegar netárásir sem skekja grunnstoðir íslensks samfélags.

Glassriver fékk 500 þúsund evrur í styrk til framleiðslu á leiknu þáttaröðinni Flóðið (Avalanche). Veðurfræðingur með stormasama fortíð, neyðist til að snúa aftur í sinn heimabæ þegar gríðarstór snjóflóð ógna lífi bæjarbúa og leiða í ljós gömul leyndarmál bæjarins. Þáttaröðin byggir á verstu náttúruhamförum Íslands og fjallar um sorgina sem þessi harmleikur skildi eftir sig og þjóðareininguna sem hann kveikti.

Sameinuðu íslensku kvikmyndaveldin fengu 500 þúsund evrur fyrir þáttaröðina Reykjavík Fusion. Umfjöllunarefni: Matreiðslumeistarinn Jónas kemur úr fangelsi og reynir að vinna aftur fyrrum unnustu og börn. Dyr samfélagsins standa honum læstar og í örvæntingu stofnar hann veitingastað með félaga sínum úr fangelsi gegn loforði um að þvætta pening þar í gegn. Sú ákvörðun stofnar fljótt skilorði hans, lífi og fjölskyldu í hættu.
Einnig fékk fyrirtækið tvo samþróunarstyrki vegna tölvuleikja: verkefnið Volcano sem er leitt af Króötum og verkefni Wool með Serbum.

Fyrirtækið Huldufugl sendi inn fyrstu íslensku umsóknina í tölvuleikja og sýndarveruleikasjóð MEDIA og fékk framleiðslustyrk. Mikil ánægja er með þennan fyrsta styrk að upphæð 56 þúsund evra (um 8,4 milljónir kr.) fyrir þróun á sýndarveruleika-verkinu Fallax VR . 

Kvikmyndahátíðin RIFF fékk styrk að upphæð 45 þúsund evra (um 6,8 milljónir kr.)  fyrir 2024

Samtals gerir þetta 1.601.000 evra eða um 240 milljónir íslenskra króna til MEDIA verkefna.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica