Creative Europe sumarfréttir 2019
Creative Europe MEDIA
Árið byrjar rólega hjá MEDIA. Þrjár umsóknir hafa fengið styrki af fjórtán innsendum, sem er lægra hlutfall en vanalega, en svipað meðaltali allra umsókna í Evrópu. Von er á fleiri niðurstöðum frá dreifingu evrópskra kvikmynda (valkerfið) fljótlega og svo fleirum þegar líður á árið.
Styrkir til undirbúnings og framleiðslu kvikmynda
Á fyrsta skilafresti voru átta íslenskar umsóknir til undirbúnings kvikmynda sendar inn og fékk ein þeirra úthlutun. Það var framleiðslufyrirtækið Tenderlee ehf. sem fékk úthlutað 50.000 evrum fyrir leikna kvikmynd: Wild Summer.
Styrkir til framleiðslu á sjónvarpsefni
Tvær umsóknir voru send inn til framleiðslu á sjónvarpsefni en fengu því miður ekki úthlutun.
Dreifingarstyrkir (sjálfvirka kerfið)
Bíó Paradís og Myndform ehf. fá 27.000 evrur samtals.
Styrkir til kvikmyndahátíða
Á fyrsta skilafresti fóru þrjár íslenskar umsóknir en fengu ekki úthlutun.
Námskeið og tengslanet
MEDIA styður margvísleg námskeið tengslanet. Viðburðir sem þessir skapa ýmis tækifæri til starfsþróunar og tengslamyndunar fyrir fagfólk í kvikmyndagerð og margmiðlun. Sjá yfirlit vefsíðu Creative Europe MEDIA.
Creative Europe Menning
Rétt eins og í MEDIA fór árið rólega af stað í menningarhluta Creative Europe. Þó eru Íslendingar með umsóknir bæði í samstarfsverkefnum og bókmenntaþýðingum. Niðurstöður liggja ekki fyrir.
Samstarfsverkefni - tímabært að huga að undirbúningi
Nú er lag að tengjast evrópskum félögum til að sækja um samstarfsverkefni á sviði lista og menningar. Þriggja landa samstarf styrkir allt að 200 þúsund evrur og sex landa samstarf eða fleiri allt að 2 milljónir evra. Næsti umsóknarfrestur verður í nóvember eða desember. Eingöngu lögaðilar geta sótt um.
Forgangsatriði samstarfsverkefna eru:
- Að styðja samstarf listamanna og menningarstofnana landa á milli.
- Bæta aðgengi og þátttöku að menningararfi, menningu og listum. Þátttaka barna, ungs fólks og minnihlutahópa aukin.
- Nýsköpun alls konar, markaðsvæn og rafræn nálgun í menningarstarfi.
- Verkefni takist á við fjölmenningu og virðingu fyrir mismunandi menningu, og félagslega aðlögun nýbúa og flóttamanna.
- Eftir evrópska menningararfsárið 2018 verði áfram vakin athygli á sameiginlegri sögu og gildum Evrópubúa.
Sjá nánar um samstarfsverkefni hér.
i-Portunus ferðastyrkir: næsti umsóknarfrestur er 15. júlí nk.
i-Portunus hóf göngu sína í apríl sl. Verkefnið er liður í undirbúningi fyrir frekari stuðning Creative Europe við ferðir listamanna. Veittir hafa verið styrkir til myndlista- og sviðslistafólks til samstarfs, sýninga, sköpunar og styttri námsferða. Kynnið ykkur i-Portunus nánar á heimasíðu verkefnisins.
Næsta kynslóð Creative Europe
Undirbúningur fyrir næsta tímabil Creative Europe stendur nú sem hæst í á vettvangi ESB. Meðal þess sem lögð verður áhersla á eru kynjamál, fjölmiðlar og ferðastyrkir til listafólks.
Kynjajafnrétti
Meðal þess sem lögð verður áhersla á er að jafna stöðu kynjanna á vettvangi menningar og lista. Liður í þessu er söfnun gagna um stöðu mála í skapandi greinum. Hvernig þessi áhersla mun koma í mati á umsóknum á eftir að koma í ljós, en þess gætu sést merki strax á næsta ári.
Fjölmiðlar
Meðal áhugaverðra nýjunga er stuðningur við fjölmiðlageirann. Útfærsla liggur ekki fyrir, en áherslan verður á gæðablaðamennsku og fjölmiðlalæsi. Þessi nýi þáttur í Creative Europe mun að líkindum heyra undir MEDIA hlutann, sem styrkir sjónrænar greinar.
Ferðastyrkir til listafólks
Í næstu kynslóð Creative Europe verður einnig lögð áhersla á ferðastyrki til listafólks, til náms- og samstarfsheimsókna. Þessi nýi þáttur hefur verið prufukeyrður í ár undir merkjum i-Portunus.
Creative Europe, kvikmynda- og menningaráætlun ESB, skiptist í tvo hluta, MEDIA og Menningu. MEDIA styður evrópska kvikmyndagerð og margmiðlun með styrkjum til þróunar, dreifingar og kynningar á kvikmyndum og tölvuleikjum. Áætlunin styður verkefni með evrópska og alþjóðlega skírskotun og notkun á nýrri tækni. Menning styrkir bókmenntaþýðingar og gerir listamönnum og fagmönnum í menningargeiranum kleift að koma verkum sínum á framfæri á alþjóðavettvangi auk þess sem hún styður við bakið á hundruðum evrópskra samstarfsverkefna á menningarsviðinu og ýmsum umræðu- og tengslanetum.