CE/MEDIA: Uppskera ársins 2016

2.2.2017

Á 25 ára afmælisári MEDIA var úthlutað tæplega 66 milljónum króna til tólf íslenskra verkefna úr kvikmyndahluta Menningaráætlunar ESB. Það sem bar hæst á árinu var að „Fangar“, ný sjónvarpsþáttaröð í leikstjórn Ragnars Bragasonar, sem Mystery Ísland framleiðir, fékk styrk frá sjónvarpssjóði MEDIA.

Íslenskum fyrirtækjum gekk vel í styrkúthlutunum á afmælisárinu. Nítján íslenskar umsóknir bárust í MEDIA og tólf þeirra fengu samtals tæplega 66 milljónum úthlutað, eða 485.946 evrum. Árangurshlutfall íslenskra aðila var því 63%. Þetta er sérstaklega áhugavert þar sem í síðustu úthlutun fengu aðeins 16.6% innsendra umsókna í þróunarsjóð MEDIA styrk. 

Styrkir til framleiðenda

Styrkir til íslenskra fyrirtækja til undirbúnings kvikmynda

Á árinu voru 4 íslenskar umsóknir sendar inn til þróunar á einstöku verkefni og fengu tvær þeirra úthlutanir, samtals 75.000 evrur. Compass ehf. fékk 25.000 evrur fyrir heimildarmyndina „Science of Play“ og Kvikmyndafélag Íslands fékk 50.000 evra úthlutun til undirbúnings á „Aðventu“, sem er byggð á skáldsögu Gunnars Gunnarssonar.

Styrkir til framleiðenda til framleiðslu á sjónvarpsefni

Á fyrsta skilafresti umsókna 2016 var ein íslensk umsókn frá Mystery Island ehf. send inn og fékk hún úthlutað 271.685 evrum fyrir leiknu sjónvarpsþáttaröðina „Fanga“. 

Lán og styrkir til dreifingar á evrópskum kvikmyndum

Valkerfið

Á árinu voru 10 íslenskar umsóknir sendar inn og fengu 5 þeirra úthlutanir. Bíó Paradís fékk dreifingarstyrk til að sýna 5 evrópskar kvikmyndir, en hver þeirra fékk 3.000 evrur. Kvikmyndirnar eru: „A Perfect Day“, „Fai BeiSogni“, „Fuocuamimare“, „Ma Loute“ og „Toni Erdmann“, en sú síðastnefnda fékk verðlaun sem besta myndin á Evrópsku kvikmyndahátíðinni 10. desember síðastliðinn auk fleiri verðlauna.

Sjálfvirka kerfið

Á árinu fóru 2 íslenskar umsóknir og fengu báðar úthlutun. Bíó Paradís fékk úthlutað 5.214 evrum og Myndform fékk úthlutað 40.079 evrum. 

Tengslanet kvikmyndahúsa

Europa Cinemas, sem fjármögnuð er af MEDIA áætluninni, fékk eina umsókn frá Bíó Paradís sem var samþykkt og hlaut styrk að upphæð 15.968 evra. 

Styrkir til kvikmyndahátíða

Á fyrsta skilafresti umsókna fór ein íslensk umsókn inn frá Alþjóðlegri kvikmynda­hátíð í Reykjavík og fékk hún úthlutað 63.000 evrum.







Þetta vefsvæði byggir á Eplica