CE/MEDIA: Uppskera ársins 2016
Á 25 ára afmælisári MEDIA var úthlutað tæplega 66 milljónum króna til tólf íslenskra verkefna úr kvikmyndahluta Menningaráætlunar ESB. Það sem bar hæst á árinu var að „Fangar“, ný sjónvarpsþáttaröð í leikstjórn Ragnars Bragasonar, sem Mystery Ísland framleiðir, fékk styrk frá sjónvarpssjóði MEDIA.
Íslenskum fyrirtækjum gekk vel í styrkúthlutunum á afmælisárinu. Nítján íslenskar umsóknir bárust í MEDIA og tólf þeirra fengu samtals tæplega 66 milljónum úthlutað, eða 485.946 evrum. Árangurshlutfall íslenskra aðila var því 63%. Þetta er sérstaklega áhugavert þar sem í síðustu úthlutun fengu aðeins 16.6% innsendra umsókna í þróunarsjóð MEDIA styrk.
Styrkir til framleiðenda
Styrkir til íslenskra fyrirtækja til undirbúnings kvikmynda
Á árinu voru 4 íslenskar umsóknir sendar inn til þróunar á einstöku verkefni og fengu tvær þeirra úthlutanir, samtals 75.000 evrur. Compass ehf. fékk 25.000 evrur fyrir heimildarmyndina „Science of Play“ og Kvikmyndafélag Íslands fékk 50.000 evra úthlutun til undirbúnings á „Aðventu“, sem er byggð á skáldsögu Gunnars Gunnarssonar.
Styrkir til framleiðenda til framleiðslu á sjónvarpsefni
Á fyrsta skilafresti umsókna 2016 var ein íslensk umsókn frá Mystery Island ehf. send inn og fékk hún úthlutað 271.685 evrum fyrir leiknu sjónvarpsþáttaröðina „Fanga“.
Lán og styrkir til dreifingar á evrópskum kvikmyndum
ValkerfiðÁ árinu voru 10 íslenskar umsóknir sendar inn og fengu 5 þeirra úthlutanir. Bíó Paradís fékk dreifingarstyrk til að sýna 5 evrópskar kvikmyndir, en hver þeirra fékk 3.000 evrur. Kvikmyndirnar eru: „A Perfect Day“, „Fai BeiSogni“, „Fuocuamimare“, „Ma Loute“ og „Toni Erdmann“, en sú síðastnefnda fékk verðlaun sem besta myndin á Evrópsku kvikmyndahátíðinni 10. desember síðastliðinn auk fleiri verðlauna.
Sjálfvirka kerfið
Á árinu fóru 2 íslenskar umsóknir og fengu báðar úthlutun. Bíó Paradís fékk úthlutað 5.214 evrum og Myndform fékk úthlutað 40.079 evrum.