Úthlutanir 2024
Nánari lýsing á verkefnum er fengu styrk árið 2024
Reykjavíkurborg - 11.500.000 kr
Leikskólaverkefnið
Í samvinnu við Akureyrarbæ og Ísafjarðarbæ. Samstarf leik- og tónlistarskóla þar sem söngur, tónlistararfur, hljóðfæraleikur og samsköpun barna er nýttur inn í alla þætti kennslunnar í leikskólastarfi með áherslu á sköpun, málskilning og orðaforða. Nemendur í tónlistarskóla vinna með elstu börnum leikskóla sem lýkur með sameiginlegum lokatónleikum í menningarhúsi. Verkefnið veitir fimm ára börnum jöfn tækifæri til að efla færni sína í gegnum tónlist og söng í þverfaglegu starfi innan leikskólans í samstarfi við nemendur tónlistarskólanna.
Vestfjarðastofa ses. - 6.000.000 kr
Púkinn 2025
Púkinn er barnamenningarhátíð Vestfjarða. Hann fer fram um allan Vestfjarðakjálkann. Megináherslan er valdefling barna. Mikil áhersla er lögð á samstarf milli svæða og lifandi miðlun. Þannig er stefnt að því að þroska menningarvitund barnanna og veita þeim þjálfun í að skapa menningu og njóta hennar.
Listasafn Íslands - 5.800.000 kr
Stattu og vertu að steini!
Fjallar um þjóðsögurnar í íslenskri menningu og myndlist. Að verkefninu koma fjölmargir fagaðilar, skólar, listamenn og sérfræðingar. Samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands er veigamikill þáttur í verkefninu, en auk þeirra verður unnið með starfandi listamönnum að gerð og þróun listrænna verkefna fyrir börn. Rauði krossinn og Ingunnarskóli eru einnig samstarfsaðilar, ásamt grunn- og framhaldsskólum á landsbyggðinni.
Austurbrú ses. - 5.000.000 kr
Uppspretta
BRAS menningarhátíð barna og ungmenna er nú haldin í sjöunda sinn og ber nafnið "Uppspretta". Í ár ætlum við að hvetja börn og ungmenni til að horfa inn á við og finna hvernig þau geta virkja sköpunarkraftinn sinn, fundið sjálfið sitt og skapað á þeim forsendum. Finna hvaðan þau koma og fyrir hvað þau standa. Í samstarfi við fjölbreyttan hóp listafólks verður haldin menningarveisla um allt Austurland þar sem nýir farvegir fyrir listir og menningu verða virkjaðir.
Reykjanesbær - 5.000.000 kr
Virkjun skapandi lista meðal barna í Reykjanesbæ
Listasafn Reykjanesbæjar setur upp verkefni fyrir Listahátíð barna og ungmenna í samstarfi við grunnskóla Reykjanesbæjar, 5. bekkur í öllum grunnskólum taka þátt í merkingarbæru þematengdu verkefni sem unnið er sérstaklega fyrir Listahátíð. Allir sjö skólar bæjarfélagsins starfa með einum myndlistamanni og Listasafni Reykjanesbæjar. Verkefnið jafnar aðgengi barna að myndlist og opnar fyrir nýungar í kennslufræði.
Handbendi Brúðuleikhús ehf. - 4.860.000 kr
Studio Handbendi
Open access art studio, performing arts courses, and venue for children and young people in Húnaþing vestra.
Hringleikur – sirkuslistafélag - 4.498.000 kr
Sirkusinn og ég - Flipp Festival
Verkefnið er sirkuslistahátíð, vettvangur nýsirkussýninga og fjölbreyttra námskeiða sem henta breiðum hópi áhorfanda og iðkenda, sem dreifist yfir nokkurra mánaða tímabil og endar á tveggja daga hápunkti. Markmið hátíðarinnar er að veita innsýn í nýsirkus og vekja athygli á þeim vexti sem orðið hefur í greininni á Íslandi, bæði sem sviðslist og sem skapandi tómstundagrein. Verkefnið veitir þeim börnum sem stunda sirkuslistir verðmætt tækifæri til sköpunar og sýninga í frjóu umhverfi.
Listasafn Árnesinga - 4.000.000 kr
Hringrásir - list og vísindi
Markmið verkefnisins er að virkja nemendur eldri bekkja grunnskóla og fyrstu bekkja á framhaldsskólastigi í skapandi hugsun í því frumkvöðlastarfi sem tengir listir og vísindi. Ungmennin fá aðgang að lista og vísindafólki. Verkefnið snýst um lýðræðislega nálgun og valdeflingu þar sem yngri kynslóð fær að koma sínum hugmyndum og þekkingu á framfæri og hafa áhrif á stofnun sem sinnir listum og menningu og veita þeim vettvang til skapandi hugsunar.
Reykjavíkurborg 4.000.000 kr BIG BANG tónlistarhátíð "BIG BANG evrópsk tónlistarhátíð fyrir unga áheyrendur sem fá að upplifa fjölbreytta og metnaðarfulla efnisskrá er samanstendur af tónleikum, innsetningum og tónlistartengdum smiðjum undir handleiðslu fagfólks í tónlist. Áhersla er lögð á tónlistarfólk og tónskáld sem sjá ævintýrið í tónsköpun og leitar frjórra leiða til að kynna tónlist fyrir börnum og deila með þeim sviðinu og búa til magnaða upplífun á forsendum barna og ungs fólks.
Afrika-Lole,áhugamannafélag - 3.700.000 kr
FAR Fest Afríka Barnamenning 24 - 25
FAR Fest Afríka er afrísk-íslensk menningarhátíð með áherslu á tónlist, dans, samstarf, tjáningu og sköpun. Í forgrunni er dillandi afrísk tónlist, listir og menning í samstarfi við íslenskt tónlistar- og listafólk.
FAR býður upp á fjölbreytt tónlistaruppeldi í samvinnu við tónlistarkennara og -fólk sem vinnur með börnum á öllum aldri; leik- og grunnskólabörnum, skólakórum og - hljómsveitum og tónlistarnemendum með virkri þátttöku ánámskeiðum, tónleikum og listviðburðum.
Trúðavaktin, félagasamtök - 3.665.000 kr
Trúðavaktin, íslensku sjúkrahústrúðarnir
Trúðavaktin, íslensku sjúkrahústrúðarnir, eru fyrstir sinnar tegundar á Íslandi. Vaktina skipa fagmenntaðir leikarar sem hafa hlotið sérstaka þjálfun í aðferðafræði og vinnusiðferði sjúkrahústrúða. Trúðavaktin býður ókeypis þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra á Barnaspítala Hringsins. Trúðarnir heimsækja öll börn frá 0-18 ára á spítalanum, alla fimmtudaga, allt árið um kring, tveir trúðar í senn. Hlutverk Trúðavaktarinnar er að skapa stuttar gleðistundir í erfiðum aðstæðum.
Dansgarðurinn, félag - 3.000.000 kr
Dansfræðsludagar - Dans fyrir alla
Dansgarðurinn mun bjóða upp á dansfræðsludaga fyrir börn í 6. bekk á höfuðborgarsvæðinu. Skólahópum verður boðið upp á dansfræðslu og -kennslu þar sem nemendur fá tækifæri til þess að læra grunnhugtök dansins, skapa eigið dansverk og æfa sig í framkomu, samstarfi og ákvarðanatöku ásamt því að fá innsýn í hvað felst í starfi dansara og danshöfunda.
Reykjavík Dance Festival. - 3.000.000 kr
Tilfinningaskólinn
Tilfinningaskólinn er nýjasta samstarf Reykjavík Dance Festival og Ásrúnar Magnúsdóttir. Í verkefninu verður tuttugu ungmennum gefið færi á því að kanna sambandið á milli upplifunar, tilfinninga og aðgerða í von um að auka færni og sjálfstraust í borgaralegri, félagslegri og menningarlegri þátttöku. Verkefninu lýkur með ungmennahátíð sem fer fram samhliða Reykjavík Dance Festival 2025 og er skipulögð og framkvæmd af þátttakendum verkefnisins.
Heimili kvikmyndanna - Bíó Paradís ses. - 3.000.000 kr
Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík
Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í ellefta sinn dagana 26. október til 3. nóvember 2024 í Bíó Paradís. Hátíðin hefur fest sig í sessi sem árlegur menningarviðburður í Reykjavík og hefur brotið blað í kvikmyndamenningu barna og unglinga. Verndari hátíðarinnar er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands. Hátíðin eykur kvikmyndalæsi barna- og unglinga á Íslandi og er tækifæri fyrir alla fjölskylduna að upplifa kvikmyndamenningu saman.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum - 3.000.000 kr
Hvað er með ásum?
Fræðslu- og listsköpunarverkefni fyrir börn byggt á norrænni goðafræði. Verkefnið er tilraun til samtals á milli fræðafólks, skólasamfélagsins og listamanna og snýr að miðlun til barna á handritaarfinum og úrvinnslu þeirra á honum. Tilefnið er opnun nýrrar handritasýningar í Eddu. Goðin eru nálæg veruleika barna í dag vegna tölvuleikja og bíómynda en í þessu verkefni erum við að virkja þau sjálf, ímyndunarafl þeirra og sköpunarkraft − tengja við handritin − sjálfa uppsprettuna.
Dansverkstæðið - 3.000.000 kr
Barna- og fjölskyldudagskrá á Dansverkstæðinu
Dansverkstæðið í samstarfi við Assitej á Íslandi stendur fyrir glænýju og metnaðarfullu verkefni sem hefur það að markmiði að auka aðgengi barna og fjölskyldna að danstengdum viðburðum. Einnig mun verkefnið styðja við og veita listafólki vettvang og tækifæri til þess að þróa nýjar sýningar fyrir börn og ungmenni.
Eva Rún Þorgeirsdóttir - 2.820.000 kr
Svakalega sögusmiðjan - raddir barna
Í Svakalegu sögusmiðjunni er lögð áhersla á að sýna börnum bókasafnið sem stað sköpunar og miðlunar með því að vinna saman að gerð tímarits. Í gegnum skapandi vinnuferli er unnið að því að efla sjálfstraust þeirra og sjálfstæði í sköpun. Í tímaritinu verður saga og mynd eftir hvert barn, umfjöllun um barnabækur sem þau skrifa og líka ýmis góð ráð um sögugerð og hugmyndavinnu. Tímaritið er hannað og sett upp af umsjónarmönnum klúbbsins og það prentað og dreift til þátttakanda og á bókasöfnum.
Reykjavíkurborg - 2.600.000 kr
Sögur - Verðlaunahátíð barnanna
Við erum umvafin Sögum, þær eru í tónlistinni sem við hlustum á, leiknar á leiksviðum landsins, til sýninga í kvikmyndahúsum og sjónvarpi og auðvitað í bókum sem við lesum og sögunum sem við segjum. Markmið Sagna er að lyfta verkum barna og sýna þeim hvað getur orðið úr hugmyndum þeirra. Hefja upp íslenskuna sem skapandi tungumál og styrkja börn í að nýta tungumálið á fjölbreyttan hátt. Gefa börnum rödd til að velja það sem þeim finnst vel gert á sviði barnamenningar.
Tónlistarfélag Árbæjar - 2.295.000 kr
Ungir lagahöfundar - Lagasmíðabúðir í Tónhyl fyrir 16 - 18 ára
Lagasmíðabúðir í Tónhyl fyrir unga tónhöfunda á aldrinum 16 - 18 ára í samstarfi við atvinnutónlistarfólk og tónlistargeirann. Markmiðið er að ná til ungra lagahöfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref, þjálfa þá í ýmsum atriðum tengdum lagasmíðum og að vinna saman að tónlistarsköpun. Munu allir fá leiðsögn frá atvinnutónlistarfólki ásamt fólki úr tónlistargeiranum ásamt því að fá tækifæri til að koma tónlist sinni á framfæri og efla tengslanet sitt.
Söngskólinn í Reykjavík 2.000.000 kr Oliver! - hátíðaruppfærsla Ungdeildar Söngskólans í Reykjavík Í tilefni af 25 ára afmæli Ungdeildar Söngskólans í Reykjavík setur deildin upp söngleikinn Oliver! í Gamla Bíói ásamt hljómsveit.
Kópavogsbær - 1.725.000 kr
Tímamót og fögnuður. Raddir barna í Kópavogi
Barnakórar í Kópavogi frumflytja átta glæný kórverk á tónleikum í Salnum í Kópavogi í október 2024 í tilefni af 25 ára afmæli Salarins.
Verkin eru samin út frá sjónarhóli barnsins og helmingurinn með þátttöku þeirra. Söngvararnir ungu koma úr Hörðuvallaskóla, Kárnesskóla og Smáraskóla en tónskáldin eru Benni Hemm Hemm, Ingibjargir, Jóhann G. Jóhannsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Nína Solveig Andersen, Tryggvi M. Baldvinsson, Úlfur Eldjárn og Þóra Marteinsdóttir.
Grunnskólinn á Drangsnesi - 1.620.000 kr
Goðdalir - sviðslistasmiðja barna
Goðdalir - Sviðslistasmiðja barna er þverfagleg listsmiðja barna á Ströndum sem spannar heilt skólaár í samstarfi við fagfólk og listamenn. Í verkefninu er unnið þvert á listgreinar; leiklist, myndlist, hönnun og handverk, ritlist, söngur og dans er samþætt í eina heild og afraksturinn er klukkustundarlangt sviðslistaverk sem 20 - 25 börn frá Drangsnesi og Hólmavík semja, skapa og setja upp. Verkið verður sýnt á Ströndum, 2-3 sýningar í apríllok 2025.
LungA-Listahátíð ungs fólks - 1.593.000 kr
Fjölskylduhátíð og listasmiðjur fyrir börn og ungmenni
LungA listahátíð ungs fólks verður haldin á Seyðisfirði nú í sumar í sitt síðasta sinn. Þema hátíðarinnar í ár er Spírall eða Hvirfill og vísar til sköpunargleðinnar, vina og stuðningsnets LungA yfir árin. Í ár fagnar hátíðin LungA fjölskyldunni, vinum og fyrrum þátttakendum. Að kveðjukossi verður boðið sérstaklega upp á þrjár fjölbreyttar og skemmtilegar listasmiðjur fyrir börn og ungmenni í von um að veita yngri kynslóðinni innblástur til áframhaldandi leik- og sköpunargleði á Seyðisfirði.
Kammerhópurinn Reykjavík-Barokk - 1.500.000 kr
Krakkabarokk á ferð og flugi
Krakkabarokk á ferð og flugi er samstarfsverkefni Kammerhópsins ReykjavíkBarokk og tónlistarskóla í Hafnarfirði og á Suðurlandi. Nemendur skólanna kynnast upprunaflutningi barokktónlistar og íslenskum þjóðlagaarfi gegnum gagnvirkt námsefni og vinnustofur með hljóðfæraleikurum sem starfa við upprunaflutning. Afrakstur vinnunnar verður fluttur á aðgengilegum fjölskyldutónleikum í heimabyggð þar sem tónlistarnemendur koma fram í félagi við atvinnumenn.
Langanesbyggð - 1.435.000 kr
Tungubrestur og listsköpun
Tungubrestur og listsköpun er listasmiðja á Bakkafirði fyrir nemendur úr 8., 9. og 10. bekk grunnskóla Langanesbyggðar. Ungmennin fá tækifæri til að kynna sér þjóðsögur sem tengjast Bakkafirði og svæðinu í kring, fjölbreyttum listformum og búa til listaverk úr efnivið sagnanna í samstarfi við listafólk. Hér munu ritlist, sviðslistir, sagnahefð og skúlptúragerð sameinast í einn ham.
Kópavogsbær - 1.340.000 kr
Fjölþjóðlegir tónleikar á Barnamenningarhátíð 2025 í Salnum
Tónleikar með arabísku og íslensku ívafi undir stjórn Thabit Lakh og Sigrúnar Kristbjargar Jónsdóttur í Salnum á Barnamenningarhátíð 2025 með þátttöku fjölþjóðlegs hóps barna.
Minjasafn Reykjavíkur - 1.060.000 kr
Vaxtaverkir - sjónlýsingar og táknmálsleiðsögn
Útbúin verður sjónlýsing og táknmálsleiðsögn um sýninguna Vaxtaverkir sem mun opna í Árbæjarsafni 25. apríl 2024. Sjónlýsingin og táknmálsleiðsögnin verður aðgengileg öllum gestum safnsins, bæði á íslensku og ensku sem og á íslensku táknmáli og alþjóðlegu táknmáli. Sjónlýsingin verður unninn út frá sjónarhorni blindra og sjónskertra barna. Táknmálsleiðsögnin verður einnig unnin út frá sjónarhorni heyrnalausrar og heyrnaskertra barna.
Sumartónleikar Skálholtskirkju - 1.000.000 kr
Barnamenningarhátíð Sumartónleikanna í Skálholti
Metnaðarfullir nýir viðburðir fyrir börn, þar sem þau taka þátt í listkennslu á vegum sumartónleikanna í Skálholti. Umsjón með starfinu er Angela Árnadóttir.
Menningarfélagið Rebel Rebel - 1.000.000 kr
Viðburðir fyrir börn á Hamraborg Festival 2024
Hamraborg festival býður upp á fjölbreytt úrval viðburða, vinnusmiðja og sýninga fyrir börn með áherlsu á fjölmenningu í miðbæ Kópavogs.
Listahátíð í Reykjavík - 975.000 kr
Yes Yes Yes
Yes Yes Yes er nýsjálensk leiksýning fyrir unglinga um upplýst samþykki í kynlífi sem verður sýnd á opnunarhelgi Listahátíðar 2024. Verkið er að hluta til heimildaleikhús og að hluta til opnar samræður. Til þess að tengja sýninguna beint við íslenskt samfélag og veruleika ungs fólks hér verða unnin myndbönd með viðtölum við ungmenni á Íslandi sem verða hluti af sýningunni. Í aðdraganda viðtalanna taka þátttakendur þátt í tveggja daga námskeiði undir handleiðslu sérfræðinga.
Kópavogsbær - 960.000 kr
Together. Fjöltyngdar listsmiðjur fyrir börn og fjölskyldur
Together. Fjöltyngdar listsmiðjur fyrir börn og fjölskyldur. Samstarfsverkefni menningarsviðs Kópavogsbæjar og Hjálparsamtakanna GETA.
Kol og salt ehf - 800.000 kr
FURÐUVERUR Í MYRKRINU
FURÐUVERUR Í MYRKRINU er verkefni allra barna á aldrinum 4 – 8 ára í leik- og grunnskólum Ísafjarðarbæjar. Börnin fræðast um furðuverur í þjóðsögum og munnmælum og gera af þeim myndir sem eru sameinaðar í myndböndum/hreyfimyndum og þeim varpað á glugga og veggi í opinberu rými víðsvegar um bæjarfélagið á dimmasta tíma ársins.
Kópavogsbær - 663.000 kr
Blásum lífi í þjóðsögurnar
Bókasafn Kópavogs ætlar að kynna þjóðsögur Jóns Árnasonar fyrir börnum og unglingum á nýstárlegan og skemmtilegan hátt og halda þessum sagnaarfi okkar á lofti. Börnin fá tækifæri til að vinna með þjóðsögurnar í ýmsum áhugaverðum listasmiðjum, sögustundum ofl. Verkefnið er í samstarfi við grunnskóla og leikskóla í Kópavogi.
Natalia Duarte Jeremias - 600.000 kr
A moment of music with Natalia
A moment of music with Natalia” is a 30-40 minute activity aimed for children ages 0 to 6. Inspired by Edwin Gordon's Music Learning Theory, this project is conceived as a participatory concert for children and their parents.The main feature is the lack of use of language during the activity, so it is ideal for a multicultural and linguistically-diverse audience. The teacher/guide uses gestural cues and sings with neutral syllables so the center of attention is on making music together.
Norræna húsið - 560.000 kr
Hvernig tala ég um bækur? myndlestur, samtal og fræðsla
Markmið verkefnisins er að kveikja aukinn áhuga á lestri með myndu, samtölum og æfingum. Tilgangur verkefnisins er að varpa fram hugmyndum um hvernig hægt er að búa til skemmtileg samtöl og æfingar út frá bókum. Yngstu börnin læra myndlestur og hvernig myndir geta stutt við lesskilning og þar með væri hægt að auka áhuga þeirra á lestir. Sýning í Norræna húsinu, byggð á Norræna bókagleypinum, verður notuð sem kennslutæki og útgangspunktur verkefnisins sem endar á sýningu með verkum barna.
Tónskáldafélag Íslands - 530.000 kr
Lúðrasveitargjörningur á Myrkum Músíkdögum
Skólalúðrasveit Vesturbæjar og Miðbæjar og Skólalúðrasveit Austurbæjar sameinast í risalúðrasveitargjörningi undir stjórn Inga Garðar Erlendssonar á Myrkum Músíkdögum. Gjörningaverkið er samið af C-sveitum lúðrasveitanna í vinnustofu leiddri af Inga Garðari í aðdraganda hátíðarinnar. Verkið verður svo flutt opnum rýmum Hörpu við setningu Myrkra Músíkdaga þann 23. janúar.
Náttúruskólinn, félagasamtök - 510.000 kr
Barnamenningardagurinn
Ævintýraveröld Óbyggðaseturs Íslands er umgjörðin utan um Barnamenningardaginn. Lifandi sýning setursins kynnir sögu óbyggðanna og eru allir húsakostir og innanstokksmunir á svæðinu utan safnsins einnig hannaðir til að gefa gestum innsýn í menningararfinn. Börn og forráðamenn þeirra munu upplifa jól liðinna tíma og spreyta sig á ýmsum verkefnum sem voru hluti af íslenskum jólaundirbúningi.
Fjarðabyggð - 500.000 kr
Fjölbreyttar listasmiðjur fyrir börn í Fjarðabyggð
Sumarið 2024 stendur Menningarstofa Fjarðabyggðar fyrir fjölbreyttri menningardagskrá í tengslum við listasmiðjur fyrir börn og listahátíðina Innsævi. Verkefnið er unnið í samstarfi við listafólk af svæðinu og aðra sem koma lengra að í listamannadvöl í Fjarðabyggð. Listafólk leiðbeinir börnum í listasmiðjum og vinnur að sýningum. Verkefnið skapar spennandi framboð af menningartengdum vinnusmiðjum fyrir börn og ungt fólk með fagaðilum og eflir aðgengi íbúa að listviðburðum.
Eva Rún Snorradóttir - 500.000 kr
Býr barn hér?
Býr barn hér? Skipulagðir útileikir fyrir börn. Á sumarkvöldum þjálfum við börn í að spyrja eftir börnum í hverfinu, kennum þeim leiki og höldum utan um leiki tvisvar í viku. Leikirnir fara fram á sundlaugartúni Vesturbæjarlaugar. Öll börn eru boðin velkomin með auglýsingum sem dreift er um hverfið og einnig sett á hópinn Vesturbærinn á Facebook. Verkefnið stefnir að því að gera leikina sjálfbæra, fullorðirnir verði óþarfir í lok sumars.
Alþjóðlega tónlistarakademian í Hörpu
500.000 kr - HIMA 2024
HIMA er námskeið á alþjóðlegum mælikvarða fyrir nemendur á strengjahljóðfæri. Þátttakendur fá aðstöðu til að æfa sig daglega, allt að 7 einkatíma, þjálfun og kennslu í kammertónlist, masterklassa, meðleikstíma og fræðslufundi. Þeir leika einleiks- og kammerverk á tónleikum í Hörpu og víðar. Flestir þátttakendur búa á Íslandi en fjöldi kennara og nemenda koma að utan til landsins sérstaklega til að taka þátt á HIMA sem gerir námskeiðið einstakt á landsvísu.
Emma Louise Sanderson - 300.000 kr
Fjallabyggð Mural project and Children's Workshop
Led by local artist Emma Sanderson, the Fjallabyggð Mural Project and Children's Workshop aims to engage youth. This project has two parts: Emma will paint a large mural at Siglufjörður pool (Part 1), and she will lead an exclusive two-day Children's workshop at NEON Youth Centre, involving the creation of a mural with Augmented Reality interactivity (Part 2). Funding is requested for Part 2 only.