Kerecis hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018

  • Www.nyskopunarverdlaun-2018-1
Fyrirtækið Kerecis hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi 2018. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóra Kericis, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nýsköpunarþingið var haldið þriðjudaginn 30. október kl. 14.00-16.30 á Grand Hótel Reykjavík undir yfirskriftinni Nýjar lausnir – betri heilsa?
Kerecis er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að þróun fjölmargra vara sem tengjast húð- og vefjaviðgerðum. Meginstefið í starfsemi fyrirtækisins er hagnýting á náttúrulegum efnum sem styðja við endursköpun húðar og líkamsvefja. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar og framleiðslu á Ísafirði og hóf rekstur fyrir átta árum.

Í rökstuðningi dómnefnar segir: Kerecis hefur leitt öflugt nýsköpunarstarf sem tengir saman nýja notkunarmöguleika á sjávarafurðum í heilbrigðistækni. Fyrirtækið byggir á sterkum þekkingargrunni og virku samstarfi við lækna, fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Undanfarið hefur fyrirtækið náð góðum árangri á markaði vegna sérstöðu afurða fyrirtækisins, enda hefur Kerecis einkaleyfavarið tækni sína í yfir 50 löndum. Fyrirtækið hefur fengið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum og árið 2017 hlaut fyrirtækið Vaxtarsprota ársins, sem það nýsköpunarfyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi. Samhliða aukinni markaðssetningu hefur störfum hjá fyrirtækinu fjölgað hratt og þar starfa núna yfir 50 manns við þróun, framleiðslu og sölu.

Það er mat dómnefndar að Kerecis hafi þróað framúrskarandi afurð sem hafi alla burði til að ná árangri á markaði á næstu árum og sé vel að verðlaununum komið.Nyskopunarverdlaun-4

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.

 Sjá nánar um verðlaunahafa á kerecis.com 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica