Nýsköpunarverðlaun Íslands 2015
Fyrirtækið Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands sem afhent voru á Nýsköpunarþingi 9. apríl 2015, en Zymetech er leiðandi íslenskt líftæknifyrirtæki á sviði rannsókna, þróunar, framleiðslu og sölu náttúrulegra sjávarensíma til hagnýtingar í húðvörur, lækningatæki og lyf. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við HÍ og rannsóknastjóri Zymetech veitti verðlaununum viðtöku. Efni þingsins að þessu sinni var Frá frumkvöðli til alþjóðamarkaðar og sóttu rúmlega 200 manns þingið, sem haldið var á Grand hótel Reykjavík.
Zymetech nýtir meltingarensím úr Norður-Atlantshafsþorski og hefur tekist að skapa verðmæta viðbótarafurð úr hráefni sem í gegnum tíðina hefur að langmestu leyti verið fargað. Þannig hefur fyrirtækið þróað afurð sem margfaldar virði þorsksins. Mikil rannsóknarvinna liggur að baki þeirri tækni sem tryggir virkni ensímanna og viðheldur stöðugleika þeirra. Byggt á þessari tækni hefur Zymetech þróað efnablönduna Penzyme®, sem er virka efnið í vörum fyrirtækisins.
Zymetech framleiðir margs konar húð- og snyrtivörur sem seldar eru undir ýmsum vörumerkjum samstarfsaðila fyrirtækisins, auk Pensim áburðarins sem er sennilega þekktasta vara þeirra hér á landi. Fyrirtækið vinnur nú að þróun lækningavara til meðhöndlunar á sértækum húðkvillum á borð við bólgur, útbrot, sprungna húð og til sáragræðinga. Nýjasta afurð Zymetech er lækningavaran PreCold, munnúði til varnar kvefi, en klínískar rannsóknir sýna fram á að fækka má veikindadögum af völdum kvefs um allt að helming ef munnúðinn er notaður reglulega meðan einkenni kvefsins vara eða sem fyrirbyggjandi.
Zymetech hefur í gegnum tíðina notið stuðnings íslenskra rannsóknarsjóða, en sá stuðningur ásamt traustu og farsælu samstarfi við Háskóla Íslands og Landspítala Háskólasjúkrahús hefur skipt sköpum við uppbyggingu fyrirtækisins, og er gott dæmi um hvernig háskólar og rannsóknarstofnanir geta stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi með stuðningi rannsóknarsjóða. Markmið fyrirtækisins til framtíðar er að viðhalda leiðandi stöðu á heimsvísu í rannsóknum, þróun, framleiðslu og sölu á náttúrulegum sjávarensímum til notkunar í húðvörur, lækningatæki og lyf.