Sesselja Ómarsdóttir og Egill Skúlason hljóta Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2015
Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs voru afhent á sérstöku afmælisþingi Rannís fimmtudaginn 26. nóvember, en um þessar mundir eru 75 ár síðan Rannsóknaráð Íslands var stofnað með lögum árið 1940. Á þessum tímamótum var farið yfir söguna og hlutverk Rannís í dag, auk þess sem tveir ungir vísindamenn hlutu Hvatningarverðlaunin.
Dr. Sesselja Ómarsdóttir prófessor við lyfjafræðideld Háskóla Íslands og forstöðumaður gæðarannsókna hjá Alvotech, og dr. Egill Skúlason, eðlisefnafræðingur og dósent við raunvísindadeild Háskóla Íslands, hlutu viðurkenninguna að þessu sinni. Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti Sesselju og Agli verðlaunin.
Verðmæti úr íslenskri náttúru
Sesselja er fædd árið 1975 og lauk prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og sýndi strax í grunnnámi að hún var efni í góðan vísindamann. Hún vann meistaraverkefni sitt að hluta við danska Lyfjafræðiháskólann í Kaupmannahöfn og fékk fyrir það hæstu einkunn sem gefin er. Hún varði svo doktorsritgerð sína frá Háskóla Íslands vorið 2006 á sviði lyfja- og efnafræði náttúruefna. Þar hefur hún starfað síðan og axlað sína ábyrgð í rannsóknum, kennslu og stjórnun af einstakri alúð og dugnaði. Doktorsverkefni Sesselju fjallaði um fjölsykrur úr íslenskum fléttum, efnabyggingar og áhrif á ónæmiskerfi mannsins. Í framhaldinu ákvað Sesselja að beina sjónum sínum einnig á haf út og hrinti af stað rannsóknum á efnaauðlindum íslenskra sjávarlífvera í góðu samstarfi við vísindamenn bæði hérlendis og í Bandaríkjunum. Verkefnið er mikilvægt framlag til þeirrar viðleitni okkar Íslendinga að afla nauðsynlegrar þekkingar um auðlindir okkar svo unnt sé að skapa úr þeim verðmæti. Síðasta sumar hóf Sesselja störf sem forstöðumaður gæðarannsóknadeildar hjá alþjóðlega lyfjafyrirtækinu Alvotech sem er að reisa hátæknisetur innan Vísindagarða Háskóla Íslands, en Alvotech og HÍ hyggjast vinna náið saman að því að byggja upp færni og þekkingu á líftækniiðnaði á Íslandi.
Nýjar aðferðir við framleiðslu vistvæns eldsneytis
Egill Skúlason er fæddur árið 1979 og lauk meistaraprófi í reikniefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og síðan doktorsprófi 2009 í verkfræðilegri eðlisfræði frá Danska tækniháskólanum. Í meistaranáminu lagði hann grunn að rannsóknum sínum, en þær snúast um að beita tölvureikningum til að skilja betur rafefnafræðileg ferli og hvatavirkni. Með rannsóknum sínum hefur Egill meðal annars verið að leita að efnahvötum sem geta gert það mögulegt að að framleiða áburð og vistvænt eldsneyti við herbergishita og –þrýsting til að leysa af hólmi orkufrekar aðferðir sem notaðar hafa verið hingað til. Egill hefur byggt upp öflugan og fjölþjóðlegan rannsóknahóp og verið ötull við að laða til sín nema og vekja áhuga þeirra á rannsóknum. Til viðbótar við öflugt rannsóknastarf og kennslu á sínu fagsviði, hefur Egill tekið að sér mikilvæg stjórnunarstörf við að setja upp nýjar námslínur við HÍ, bæði í efnaverkfræði og verkfræðilegri eðlisfræði, sem án efa eiga eftir að hafa mikla þýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf í framtíðinni.