Hvatningarverðlaun 2012
Dr. Páll Jakobsson prófessor í stjarneðilsfræði við Háskóla Íslands hlaut Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2012, sem afhent voru á Rannsóknaþingi Rannís miðvikudaginn 8. júní. Tók Páll við viðurkenningunni úr hendi forsætisráðherra sem jafnframt er formaður Vísinda- og tækniráðs. Á myndinni er Páll ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Hallgrími Jónassyni forstöðumanni Rannís.
Páll Jakobsson er 35 ára. Hann lauk BS-prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 1999 og hélt að því loknu til framhaldsnáms við Kaupmannahafnarháskóla. Þar lauk hann fyrst meistaraprófi og svo doktorsprófi í stjarneðlisfræði árið 2005. Doktorsverkefni Páls var á lykilsviði nútíma stjarnvísinda og fjallaði um svokallaða gammablossa, en þeir eru björtustu og orkumestu sprengingar í alheimi, tengdar þyngdarhruni massamestu stjarnanna og eru blossarnir sýnilegir úr órafjarlægð. Að loknu formlegu námi dvaldi Páll um skeið við rannsóknir við Niels Bohr stofnunina í Kaupmannahöfn og 2006 var hann ráðinn nýdoktor við háskólann í Hertfordshire á Englandi. Í ársbyrjun 2007 var honum boðin fastráðning þar, en þá Páll var farinn að hugsa til heimferðar. Hann tók við starfi dósents í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands 2008 og hlaut svo framgang í starf prófessors vorið 2010, þá einungis 33 ára gamall.
Páll er lykilmaður í alþjóðlegu tengslaneti Háskóla Íslands í stjarneðlisfræðirannsóknum, m.a. í alþjóðlegum samstarfshópi sem hefur sótt um mælitíma á stærstu geimsjónaukum veraldar, meðal annars Hubble geimsjónaukanum. Páll hefur einnig yfirumsjón með öllum gammablossamælingum á Norræna sjónaukanum og leiðir þar stóran hóp alþjóðlegra stjörnufræðinga. Þá hefur Páll komið að skipulagningu alþjóðlegra vísindaráðstefna og síðast en ekki síst hefur honum hlotnast sá heiður að sitja í ráðgjafahópi NASA um næstu skref í könnun geimsins.
Ritalisti Páls er einstakur fyrir ungan vísindamann og hefur verið vitnað mikið í skrif hans. Hann hefur einnig verið mjög öflugur við að afla styrkja, t.d. hefur hann hlotið tvo Marie Curie einstaklingsstyrki frá Evrópusambandinu og einnig hefur hann leitt verkefni sem hlaut öndvegistyrk Rannsóknasjóðs Rannís, sem gerði honum kleift að hefja uppbyggingu sterks rannsóknahóps hér á landi á sviði gammablossa.
Í störfum sínum hefur Páll sýnt að hann er frábær vísindamaður sem náð hefur langt á alþjóðavettvangi. Hann hefur sýnt sjálfstæði og frumkvæði og byggt upp mikilvægan alþjóðlegan samstarfshóp þar sem hann gegnir lykilhlutverki. Hann er jafnframt góð fyrirmynd nemenda og samstarfsmanna. Það var einróma álit dómnefndar hvatningarverðlaunanna að Páll Jakobsson uppfylli öll viðmið hennar og sé því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2012.
Um Hvatningarverðlaunin
Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapi væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin, sem nú eru 2 milljónir króna, hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.