Hvatningarverðlaun 2010
Unnur Anna Valdimardóttir dósent við læknadeild og forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands hlaut Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2010, en verðlaunin voru afhent á Rannsóknaþingi Rannís 27. maí.
Unnur Anna er fædd á Akureyri árið 1972 og er alin upp á Ólafsfirði. Hún lauk BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og doktorsprófi í klínískri faraldsfræði frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi árið 2003. Doktorsverkefni hennar var faraldsfræðileg rannsókn á langtíma heilsufarsafleiðingum þess að missa maka úr krabbameini. Unnur dvaldi áfram við rannsóknir við Karolinska Institutet eftir að hún lauk námi. Þá kenndi hún doktorsnemum faraldsfræði og hlaut sérstakan styrk frá stofnuninni til að móta nýtt námskeiði fyrir doktorsnema í sálfaraldsfræði krabbameina.
Í desember 2006 var Unnur svo ráðin til að leiða nýstofnað þverfaglegt framhaldsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Miðstöð í lýðheilsuvísindum var formlega stofnuð 16. febrúar 2007 og hófu fyrstu nemendurnir nám á haustmisseri 2007. Hefur Unnur á undraskömmum tíma byggt upp öfluga stofnun sem er á fleygiferð inn í framtíðina. Á þeim stutta tíma sem liðinn er hefur hún byggt upp öflugt rannsóknatengt nám og nú stunda um 60 meistaranámsnemar og 20 doktorsnemar nám í lýðheilsuvísindum við Miðstöðina.
Unnur Anna gat því miður ekki tekið við verðlaununum sjálf, þar sem hún var gestavísindamaður við faraldsfræðideild Harvardháskóla í Bandaríkjunum og tók móðir hennar, Guðrún Jónsdóttur, við viðurkenningunni úr hendi forsætisráðherra sem jafnframt er formaður Vísinda- og tækniráðs.
Myndin af Unni Önnu er fengin að láni frá Háskóla Íslands.