Dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs

  • Dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2016. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs afhenti verðlaun við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi 2. júní 2016.

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs voru afhent í dag við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís sem fram fór á Grand Hótel.

Dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir, doktor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut viðurkenninguna að þessu sinni. Forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs,  Sigurður Ingi Jóhannesson, afhenti Margréti verðlaunin. Í ræðu forsætisráðherra kom fram að Margrét væri framúrskarandi ungur vísindamaður sem hafi sýnt skýran metnað til að láta gott af sér leiða í íslensku rannsóknasamfélagi og hún sé verðugur handhafi Hvatningarverðlaunanna.

Um verðlaunahafann

Margrét er fædd 1981 og lauk prófi í Lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2005. Árið 2006 hóf hún doktorsnám við Oxford Háskóla í Bretlandi sem hún lauk árið 2010. Margrét hlaut nokkur verðlaun á tíma sínum í Oxford, þar með talin The Newton Abraham Studentship, Overseas Research Award og The Hugh Pilkington Scholarship. Að loknu doktorsnámi hóf Margrét störf á rannsóknastofu Eiríks Steingrímssonar sem nýdoktor. Þar vann hún m.a. að greiningu á byggingu og starfsemi próteina sem gegna lykilhlutverki í genastjórnun í litfrumum og sortuæxlum, auk greiningar á hlutverki tiltekinna gena í krabbameinum í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Margrét hefur unnið að greiningu erfðabreytileika sem tengjast krabbameinum og skoðað áhrif þeirra á hegðun og virkni krabbameinsfruma.Auk rannsókna og kennslustarfa er Margrét áhugasöm um umhverfi vísinda á Íslandi og hefur tekið þátt í að breyta því. Hún hefur verið formaður Samtaka um krabbameinsrannsóknir á Íslandi (SKÍ) undanfarin ár og hefur staðið fyrir ýmsum nýjungum í því starfi. Hún hefur einnig unnið að ýmsum málum varðandi rannsóknastyrki á Íslandi og tekið þátt í starfsemi og stefnumótun Lífvísindaseturs Háskóla Íslands. 

Um Hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin eru nú 3 milljónir króna og hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica