Rannsóknarsjóður Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar
Hvert er markmiðið?
Markmið sjóðsins er að veita styrki til eflingar rannsóknum á korta- og landfræðisögu Íslands og íslenskri bókfræði og stuðla að útgáfu rita um þau efni.
Hverjir geta sótt um?
Allir sem áhuga hafa á korta- og landfræðisögu Íslands eða íslenskri bókfræði.
Skilyrði úthlutunar
Til þess að umsókn teljist styrkhæf verða tengsl verkefnis við markmið sjóðsins að vera augljós. Verkefnið þarf að vera vel skilgreint og tímaáætlun ljós.
Um sjóðinn
Hinn 4. maí 2008 voru liðin 100 ár frá fæðingu Haralds Sigurðssonar bókavarðar en hann lést 1995. Á þeim degi tilkynnti ekkja hans, Sigrún Ástrós Sigurðardóttir kjólahönnuður, að í samræmi við erfðaskrá þeirra hjóna frá 1983 hefði verið stofnaður Rannsóknarsjóður Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar.
Haraldur Sigurðsson starfaði sem bókavörður á Landsbókasafni Íslands í meira en 30 ár. Hann sinnti auk þess umfangsmiklum fræðistörfum, var mikilvirkur þýðandi og útgefandi og gaf sig töluvert að félagsmálum en þekktastur er Haraldur þó fyrir rit sitt um Kortasögu Íslands. Eftir hann liggja líka nokkur bókfræðirit eins og Ísland í skrifum erlendra manna og ritaskrár Halldórs Laxness og Gunnars Gunnarssonar. Haraldur kvæntist Sigrúnu 1954 en hún studdi mann sinn ötullega í störfum hans.